Um okkur

/Um okkur
Um okkur2019-02-04T09:38:23+00:00

Upplýsingar um stálprófílhús.

Fyrirtækið Pró hús ehf hefur í hyggju að hefja byggingu húsa þar sem allt burðarvirki verður úr stálprófílum, einangruð með léttull milli stálprófíla, klædd með sérstökum panel-magnesiumplötum, (Nevpanel) sem síðan er klætt með pressaðri steinull, ysta klæðningin er síðan ýmist múrkerfi, álklæðning eða annað hefðbundið.

Þessar steyptu magnesium-plötur eru bæði bruna- og rakaheldar og eru úr 100% náttúrulegum efnum og eru CE vottaðar og standast allar kröfur sem gerðar eru við húsbyggingar auk þess að vera úr náttúrulegum efnum sem mygla ekki,  gefur góða hljóðeinangrun.  Að ganga um húsin er eins eða mjög svipuð tilfinning og um uppsteypt hús væri að ræða. Allir gluggar eru með þreföldu gleri sem gerir húsið enn betur einangrað, bæði hvað varðar hljóð og hita. Einnig eru Próhús fljótari að hitna og halda betur hita en hús sem eru byggð með hefðbundnum hætti.

Eigendur Pró húsa ehf hafa verið í nokkur ár að leita leiða til að geta boðið upp á góðan raunhæfan valkost fyrir íslenskan markað þar sem gott verð og gæði fara saman.

Hluti af því að hægt verður að bjóða hús/íbúðir á betra verði en í boði hefur verið hingað til er að byggingatíminn er stuttur, einnig að stálprófíllinn er fluttur inn ýmist í römmum fyrir veggi, burðarbitum fyrir milliplötur og þök. Þetta gerir það að verkum að vinna á byggingastað minnkar og hraði eykst, enginn afskurður verður af efni (ekkert rusl) sem er mikill sparnaður á mörgum sviðum.

Því er oft haldið fram að hús á Íslandi séu dýr því þau verði að standast strangar kröfur sem gerðar eru fyrir íslenskar aðstæður, sem að hluta til er rétt en hús sem byggð eru úr léttum stálprófíl standast þær kröfur, til dæmis þola þau mun hærri jarðskjálftastaðla en kröfur sem gerðar eru á Íslandi, einangrun húsanna er mjög góð einnig er Pró hús með þrefalt verksmiðjugler sem er mun meiri hita og hljóðeinangrun en almennt er boðið upp á á Íslandi.

Verksmiðjan sem framleiðir prófílinn og hannar húsin er búin að framleiða sambærileg hús í yfir 20 ár en þessi tilteknu hús í rúm tíu ár, flest seld og upp sett í Rúmeníu en einnig í Frakklandi, Þýskalandi, Noregi og Svíþjóð og fleiri löndum.

Vanir menn koma með og reisa húsin undir lögbundnu eftirliti íslenskra fagaðila eins og lög gera ráð fyrir.

Byggingartíminn er um 60-90 dagar, reisa og klára húsið að utan og fullklára að innan, svo framkvæmdatíminn er því um þrír mánuðir.

Heildarverð á fermetra verður mun betra en það sem verið er að bjóða á Íslandi í dag.

Það er raunhæfur möguleiki að geta boðið tveggja herbergja 53 fermetra íbúð á 14.– 16.000.000 kr. hér er verið að tala um 100% tilbúnar íbúðir með öllum innréttingum. Þessi verð geta staðist ef sveitarfélög eru tilbúin að stilla verði lóða og gjalda í hóf.

Eins og almenna reglan er t.d. í Reykjavík þá er borgin að óska eftir 45.000 kr. á hvern byggðan fermeter en eru tilbúnir að semja um þetta gjald sem og að gefa greiðslufrest til að minnka fjármagnskostnað sem hjálpar við að halda kostnaði niðri í átakinu “hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur”.

Gjöld á framkvæmdir eru eðlilegar fyrir öll sveitarfélög en sveitarfélög bera líka mikla ábyrgð, sú ábyrgð er meðal annars fólgin í skipulagsmálum og að sjá til þess að eðlilegt framboð sé á byggingalóðum þannig að lóðaskortur verði ekki til þess að verð húsnæðis fari upp úr öllu valdi líkt og ástandið er á Íslandi í dag.

Það er okkur mikið kappsmál að geta boðið góðar íbúðir á góðu verði, við vitum að það er hægt en það þarf vilja til að breyta og allir sem að verkefninu koma þurfa að leggja sitt af mörkum og bjóða upp á hagkvæmni sem skilar sér til kaupenda en ekki í hærra lóðarverði og auknum hagnaði byggingaverktaka.

Það er varla talað við stjórnmálamenn eða stéttarfélög nema fram komi að íbúðarverð sé svo hátt að það sé næstum ógjörningur fyrir ungt fólk að kaupa sér sína fyrstu íbúð. Jaðarhópar eru að myndast sem ekki eygja möguleika á að eignast fasteign þó vinnuævin öll sé framundan. Gróðasjónarmið leigusala hafa gríðarleg áhrif og skortur á minni fasteignum/íbúðum er staðreynd.

Pró hús stefnir á að bæta við á markaðinn vönduðu húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir unga sem aldna sem t.d. þurfa minna pláss heldur en verið er almennt að bjóða í dag einnig ætti þetta að geta orðið kærkomin viðbót fyrir sveitarfélög fyrir íbúðir til útleigu, hvort sem það væru félagslegar íbúðir, sambýli eða íbúðir sem væru með stofnanaframlögum og geta boðið upp á ódýrari einingar þar sem gæði og byggingarlag er á pari við núverandi kröfur um slíkar byggingar.